Lífið

Bon Jovi og fjölskylda orðlaus yfir Íslandsdvölinni

Bon Jovi og fjölskylda ferðuðust um í þyrlu á Íslandi og flugu meðal annars til Vestmannaeyja.
Bon Jovi og fjölskylda ferðuðust um í þyrlu á Íslandi og flugu meðal annars til Vestmannaeyja. Mynd/Stefán
Rokksöngvarinn Jon Bon Jovi dvaldi á Íslandi í vikunni ásamt fjölskyldu sinni, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Hann var gríðarlega ánægður með dvölina, samkvæmt skipuleggjanda ferðalagsins.

„Þetta er eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í," segir Þorbjörg Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Visitor, sem skipulagði ferðir söngvarans Jons Bon Jovi og fjölskyldu hans á Íslandi.

Jon Bon Jovi kom til landsins ásamt eiginkonu sinni, fjórum börnum, aðstoðarmanni og eiginkonu hans um síðustu helgi. Þau dvöldu á Hótel Borg, en ferðuðust mikið um Suðurland. Hópurinn skoðaði meðal annars Gullfoss, Geysi og Vestmannaeyjar ásamt því að ferðast vestur í Borgarfjörð. Þorbjörg, eða Obbý eins og hún er ávallt kölluð, segir Bon Jovi og fjölskyldu hafa kunnað gríðarlega vel við sig á Íslandi.

„Þau eiga ekki til orð. Þau héldu að þau væru búin að sjá allt, en þetta var algjör upplifun. Þeim fannst hver dagur ótrúlegur," segir Obbý. „Þetta var rosalega skemmtilegt verkefni og fjölskyldan er alveg frábær. Það eru engir stjörnustælar í þeim."

Obbý segir að hann hafi að mestu verið látinn í friði á Íslandi, þó að nokkrir hafi stokkið á hann og fengið mynd af sér með goðinu. „Þetta var mjög hefðbundið, allt sem var gert og þau voru eins og hverjir aðrir túristar," segir Obbý. „Þau fóru um bæinn og fæstir þekktu þau. Hann var mjög hissa á því hvað hann fékk mikinn frið."

Bon Jovi fór til Tyrklands eftir að Íslandsdvöl hans lauk, en hann kemur fram á tónleikum í Istanbúl í kvöld ásamt hljómsveit sinni. Obbý segir hann ekki hafa útilokað að koma aftur til landsins og að hann sé kominn í hóp svokallaðra Íslandsvina. „Allt sem við gerðum sló í gegn og var það stórkostlegasta sem þau hafa lent í," segir hún.

atlifannar@frettabladid.is
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.