Lífið

Linda Björg í nýjum raunveruleikaþætti

Linda Björk Árnadóttir verður væntanlega dómari í nýjum raunveruleikaþætti.
Linda Björk Árnadóttir verður væntanlega dómari í nýjum raunveruleikaþætti.
Linda Björg Árnadóttir, fagstjóri fatahönnunardeildar Listaháskóla Íslands, tekur sæti dómara í nýjum raunveruleikaþætti sem hefst um áramótin á Stöð 2. Þáttunum hefur verið gefið nafnið Hannað fyrir Ísland og eru runnir undan rifjum Sigurjóns Sighvatssonar, kvikmyndaframleiðanda og eiganda útivistarmerkisins 66 gráður norður.

Þættirnir eiga að gefa ungum, íslenskum hönnuðum tækifæri til að koma sjálfum sér á framfæri. „Og það er engin leið betri til þess en í gegnum sjónvarp," segir Sigurjón. Byrjað verður að auglýsa eftir þátttakendum í næsta mánuði.

66 gráður norður leikur stórt hlutverk í þáttunum, keppendur eiga að hanna flíkur fyrir fyrirtækið og sigurvegarinn fær að lokum starf hjá því. „Við erum auðvitað að taka nokkra áhættu því 66 gráður norður er með gott orðspor og við leggjum það undir."

Yfirhönnuður fyrirtækisins, hinn sænski Jan Davidson, verður dómari en svo reiknar Sigurjón með því að þriðja hjólið verði gestadómari, allt eftir því hver verkefni hönnuðanna verða í hverjum þætti. „Það verður einhver sem hefur sérþekkingu í notkun á hverri flík fyrir sig."

Sigurjón bendir á að allir fremstu hönnuðir heims vinni með sínar rætur og sinn grunn. Og með keppninni gefist keppendum tækifæri til að tengjast þeim. „Þetta verður blanda af raunveruleikaþáttagerð og heimildarmynd því hönnuðirnir geta ekki bara setið inni á saumastofu og hannað flík, þeir verða að fara út í þær aðstæður sem hönnunin á að vera notuð í."

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.