Innlent

Ferðafólki ráðið frá því að ganga á Heklu

Valgerður Brynjólfsdóttir segir alls óvíst úr hvaða gíg gos í Heklu myndi koma.
Valgerður Brynjólfsdóttir segir alls óvíst úr hvaða gíg gos í Heklu myndi koma.
„Við ráðleggjum fólki að ganga ekki upp á Heklu eins og stendur,“ segir Valgerður Brynjólfsdóttir, sem rekur Heklusetrið á Leirubakka. „En það eru þó ekki nema tveir, þrír dagar síðan fólk var uppi á henni,“ bætir hún við.

Hreyfingar mældust við Heklu um og fyrir síðustu helgi en þær hafa nú að mestu gengið til baka. Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að hreyfingarnar hafi verið um 10 til 20 millimetrar, sem getur ekki talist mikið. „En það er einhver hreyfing þarna djúpt undir,“ segir hann. „Það má samt segja að hún sé tilbúin að gjósa en hvort hún gerir það á morgun eða eftir tuttugu ár, það vitum við ekki,“ bætir hann við.

Hekla hefur venjulega gosið á tíu ára fresti en síðast gaus hún árið 2000. Gunnar segir að venjulega verði jarðskjálftar um einni eða tveimur klukkustundum áður en hún gýs, það væru þá mun stærri skjálftar en mældust nú.

Valgerður segir afar varhugavert að vera á fjallinu þegar það er að minna á sig með þessum hætti, bæði vegna þess að fyrirvarinn getur verið afar stuttur og eins eru margir gígar á fjallinu og óvíst úr hverjum þeirra eldhafið hæfist á loft.

- jseAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.