Lífið

Fagnaði þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna í þyrluferð

Kastaníubrúnn hnakkinn á Jon Bon Jovi tók á móti ljósmyndara Fréttablaðsins á Reykjavíkurflugvelli í gær.
Kastaníubrúnn hnakkinn á Jon Bon Jovi tók á móti ljósmyndara Fréttablaðsins á Reykjavíkurflugvelli í gær. Mynd/Stefán
Fékk plötu með Gus Gus Maður á vegum Jon Bon Jovi kom við í plötubúð Smekkleysu á föstudag og keypti plötuna Arabian Horse með GusGus fyrir Bon Jovi.
Bandaríski rokksöngvarinn Jon Bon Jovi er staddur á landinu, eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær. Hann kom til landsins ásamt fjölskyldu sinni um helgina.

Þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna var í gær og Jon Bon Jovi og fjölskylda voru komin á kreik á Hótel Borg fyrir hádegi. Þau yfirgáfu Borgina upp úr ellefu á tveimur svörtum Lincoln Navigator-jeppum. Þeim var ekið rakleiðis á Reykjavíkurflugvöll þar sem AS365N Dauphin-þyrla Norðurflugs beið, en óvíst er hvert flogið var með hópinn. Fréttablaðið hafði samband við Norðurflug, en þar á bæ höfðu menn engar upplýsingar um ferðir Jon Bon Jovi.

Koma Bon Jovi til landsins hefur vakið mikla athygli. Eins og Vísir.is og fleiri netmiðlar greindu frá í gær heilsaði hann upp á vegfarendur á Laugavegi um helgina. Vinkonurnar Klara Björns og Beta Gagga létu smella af sér mynd með söngvaranum, en þær rákust á hann á kaffihúsi í miðborginni.

Þá kom maður úr fylgdarliði Bon Jovi við í plötubúð Smekkleysu á Laugavegi á föstudag. Sagðist hann vilja kynna Bon Jovi fyrir nýrri íslenskri tónlist og var ráðlagt að kaupa nýju plötuna með hljómsveitinni GusGus, Arabian Horse. Starfsfólk verslunarinnar fékk þau fyrirmæli að hafa hljótt um komu söngvarans til landsins, sem það gerði, en fyrsta fréttin um komu Bon Jovi til landsins birtist ekki fyrr en á mánudag í Fréttablaðinu.

Eins og fram kom í blaðinu í gær dvelur Jon Bon Jovi í turnsvítunni á Hótel Borg á meðan hann jafnar sig eftir aðgerð á hné. Hljómsveit hans Bon Jovi kemur fram í Istanbúl í Tyrklandi á föstudaginn, en heimildir Fréttablaðsins herma að hann ætli að dvelja hér á landi þangað til hann heldur til Tyrklands.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.