Lífið

Jógvan krækti í vænan lax í Langá

Jógvan Hansen vissi nánast ekkert um laxveiði þegar hann kom hingað frá Færeyjum. Hann giftist hins vegar inn í mikla veiðifjölskyldu og getur nú ekki hugsað sér betra frí en að standa úti í miðri á, hlusta á vatnið og veiða lax.
Jógvan Hansen vissi nánast ekkert um laxveiði þegar hann kom hingað frá Færeyjum. Hann giftist hins vegar inn í mikla veiðifjölskyldu og getur nú ekki hugsað sér betra frí en að standa úti í miðri á, hlusta á vatnið og veiða lax.
„Þetta tók vel á, ég var orðinn ansi þreyttur í upphandleggsvöðvunum,“ segir Jógvan Hansen söngvari, sem veiddi fimmtán punda lax í Langá á dögunum.

Jógvan er á ferð og flugi um landið með Friðriki Ómari um þessar mundir og var staddur í Neskaupstað þegar Fréttablaðið náði tali af honum. Á dögunum gafst honum hins vegar laus stund til að skella sér í Langána ásamt Arngrími Fannari (Adda Fannari), Hans Hjalta Skaale, frænda sínum frá Færeyjum, og svila sínum.

Veiðiferðin var mikil frægðarför því Jógvan krækti í vænan lax, fimmtán pund og 90 cm. Hann var hins vegar ekki rotaður eins og lög gera ráð fyrir heldur settur í ker því meiningin er að nota hann til undaneldis.

Þetta er þriðja árið sem Jógvan tekur veiðimennskuna föstum tökum. Hann hefur verið fastagestur í Langá en auk þess veitt í Selá og Veiðivötnum. „Ég er mjög vel giftur, tengdapabbi minn er veiðivörður í Langánni, bræður hans sjá um ána og þeir kynntu mig fyrir þessari íþrótt.“

Söngvarinn kveðst hafa fallið fyrir veiðiskapnum, hann hafi fundið veiðimanninn innra með sér og nú geti hann ekki hugsað sér betra frí. „Úti í ánni ríkir bara ró og friður, þarna er ekkert net og slökkt á öllum símum. Þetta er bara ég að hlusta á vatnið, hin fullkomna afslöppun.“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.