Lífið

Nýja sjarmatröllið á skjánum

Mörg járn í eldinum Reynir Örn Þrastarson, matreiðslumaður, hefur starfað sem fyrirsæta í hjáverkum síðustu ellefu árin. fréttablaðið/pjetur
Mörg járn í eldinum Reynir Örn Þrastarson, matreiðslumaður, hefur starfað sem fyrirsæta í hjáverkum síðustu ellefu árin. fréttablaðið/pjetur
Reynir Örn Þrastarson byrjaði sem Lottó-þulur í janúar á þessu ári og þykir hafa staðið sig vel í því hlutverki. Hann er fyrirsæta, sölumaður og menntaður matreiðslumaður en slíkt þykir nokkuð óvenjulegur bakgrunnur fyrir fyrirsætustarfið.

„Ég hitti Andreu Brabin á förnum vegi fyrir ellefu árum og hún lét mig hafa nafnspjaldið sitt. Þegar ég kom heim stakk ég því ofan í skúffu og gleymdi því. Svo rakst ég á það nokkru seinna og ákvað að hitta Andreu aftur. Þau hafa síðan hringt annað slagið og látið mig hafa verkefni,“ segir Reynir Örn.

Reynir hefur setið fyrir í bæði innlendum og erlendum auglýsingum og hefur meðal annars leikið í sjónvarpsauglýsingu fyrir spænska bensínstöð. „Erlendu verkefnin eru skemmtilegust því þeim fylgir oft ferðalög út á land og svo sér enginn sem maður þekkir auglýsinguna.“

Hann viðurkennir að það hafi verið skrýtið að standa fyrir framan myndavélina í fyrstu. „Mér þótti það mjög óþægilegt og fékk hálfgerðan kjánahroll. En fyrst maður er að bjóða sig fram í svona verkefni þá verður maður að standa og falla með því.“

Reynir Örn starfar sem sölumaður á daginn og segir það sjaldan vandamál að fá frí úr vinnu til að komast í tökur. „Ég fæ yfirleitt góðan fyrirvara og get því búið þannig um hnútana að geta tekið mér frí frá vinnu. Ég hef grínast með það að ég sé aðeins í dagvinnunni svo mér leiðist ekki á daginn.“

Þegar Reynir er að lokum inntur eftir því hvort hann ætli að halda fyrirsætustarfinu áfram svarar hann játandi. „Ef fólk hefur áfram áhuga á að ráða gráskeggjaðan karl í vinnu.“

-sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.