Lífið

Zeta-Jones á geðdeild

Catherine Zeta-Jones hefur verið greind með geðhvörf og hefur af þeim sökum ákveðið að leggjast inn á geðdeild í skamman tíma. Bresk geðsamtök hrósa leikkonunni fyrir hugrekki sitt; að hafa ekki farið í felur með sjúkdóminn.
NordicPhotos/Getty
Catherine Zeta-Jones hefur verið greind með geðhvörf og hefur af þeim sökum ákveðið að leggjast inn á geðdeild í skamman tíma. Bresk geðsamtök hrósa leikkonunni fyrir hugrekki sitt; að hafa ekki farið í felur með sjúkdóminn. NordicPhotos/Getty
Catherine Zeta Jones hefur lagt sjálfa sig inn á geðdeild. Hún hefur verið greind með geðhvörf en talið er að sjúkdómurinn hafi blossað upp vegna streitu í kringum veikindi eiginmanns hennar.

Það hefur mikið gengið á lífi Catherine Zetu-Jones og eiginmanns hennar, Michael Douglas. Hann greindist með krabbamein í hálsi á síðasta ári og þrátt fyrir að hafa lýst því yfir í janúar síðastliðnum að meinið væri horfið og hann hefði sigrast á sjúkdómnum fylgir því augljóst stress að berjast við svo skæðan sjúkdóm. Samkvæmt talsmanni hennar ákvað Zeta-Jones að skrá sig sjálf inn á geðsjúkrahús til að ná tökum á sjúkdómnum sem hefði látið á sér kræla í kringum baráttu Douglas við krabbameinið. „Henni líður vel og hún gerir ráð fyrir því að snúa til vinnu aftur í næstu viku enda með tvö verkefni í farvatninu,“ segir í fréttatilkynningu frá talsmanni Jones, Cece Yorke.

Málið hefur vakið mikla athygli á Bretlandseyjum. Samkvæmt ítarlegri frétt á fréttavef BBC hefur Jones verið greind með bipolar II en sjúkdómurinn brýst fram í örum og stuttum geðsveiflum. Bipolar er almennt best þekktur sem „manic depression“ og hefur verið skipt í tvo hópa; annars vegar bipolar I þar sem geðsveiflurnar koma fram sjaldan en eru djúpar og langar og hins vegar bipolar II sem Zeta-Jones glímir við.

Geðlæknar á Bretlandi hafa hrósað leikkonunni fyrir hugrekki sitt; að senda út fréttatilkynningu til fjölmiðla og tilgreina nákvæmlega hvaða sjúkdóm verið sé að vinna með í stað þess að hlaupa í felur með hann eins og svo oft sé gert með geðsjúkdóma. „Það ríkja enn miklir fordómar gagnvart geðsjúkdómum úti í samfélaginu en Jones hefur gefið fólki von sem kannski þarf að kljást við sinn geðsjúkdóm í þögn af ótta við útskúfun,“ segir Mark Davies hjá geðsamtökunum Rethink. Hann bætir því við að Jones fái væntanlega nauðsynleg lyf og verði boðið upp á samtalsmeðferð. „Það er margt sem getur komið þessum geðhvörfum af stað og hvert tilfelli er einstakt.“

Alun Thomas hjá velsku geðhjálparsamtökunum Hafal sagði í samtali við BBC að mikilvægu fréttirnar væru þær að Jones hefði leitað sér hjálpar. „Við megum samt ekki gleyma því að margir mjög heimsfrægir listamenn hafa verið greindir með þennan sjúkdóm og flestir þeirra ná sér og lifa mjög eðlilegu lífi. Það er svo auðvelt að gera sér mat úr þessu og búa til fjölmiðlasirkus en aðalmálið er að málefnið komist upp á yfirborðið og vakin sé athygli á sjúkdómnum.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.