Lífið

Til Los Angeles á fund Charlies

„Við erum að fara að heimsækja Charlies-stelpurnar, sem við erum búnir að vera að vinna með," segir Pálmi Ragnar Ásgeirsson úr upptökustjórateyminu StopWaitGo.

Pálmi og félagar héldu til Los Angeles í gær, en þar taka Klara, Alma og Steinunn í stúlknahljómsveitinni Charlies á móti þeim. Félagarnir ætluðu í svipaða ferð í fyrra en hún datt upp fyrir. Þeir hyggjast vera í þrjár vikur úti í sólinni og hafa í nógu að snúast.

„Við erum að fara á fundi og reyna að koma okkur á framfæri úti – efla tengslin við fólkið sem við erum búnir að vera í samstarfi við í tvö, þrjú ár án þess að hafa hitt," segir Pálmi.

Ásamt því að hafa samið og útsett lög fyrir Charlies hafa strákarnir unnið með söngvaranum Friðriki Dór auk þess að hafa unnið lagið Geðveikt fínn gaur með grínistanum Steinda Jr., en það naut mikilla vinsælda.

Spurður hvort markmiðið með ferðinni sé að koma ár sinni þannig fyrir borð að þeir geti samið og útsett fyrir erlenda listamenn segir Pálmi svo vera. „Það er möguleiki. Við erum að fara að hitta alls kyns fólk sem getur komið okkur í samband við hina og þessa," segir hann.

„Ég þori ekki að lofa neinu, en það er markmiðið til lengdar. Við erum að fara á alls kyns fundi með hinum og þessum sem við verðum að sjá hvað kemur út úr."- afb

Hér fyrir ofan má sjá síðasta lag sem StopWaitGo sendi frá sér, Sjomleh með Friðriki Dór, Audda og Sveppa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.