Lífið

Gleðja fólk með dansi

Þær Snæfríður Ingvarsdóttir og Hildur Margrét Jóhannesdóttir mynda dansdúettinn Brak og reyna að gleðja miðbæjargesti með dansi í sumar. 
Fréttablaðið/valli
Þær Snæfríður Ingvarsdóttir og Hildur Margrét Jóhannesdóttir mynda dansdúettinn Brak og reyna að gleðja miðbæjargesti með dansi í sumar. Fréttablaðið/valli
Dansdúettinn Brak mun gleðja gesti og gangandi í miðbæ Reykjavíkur með dansi í sumar. Dúettinn skipa þær Snæfríður Ingvarsdóttir og Hildur Margrét Jóhannsdóttir.

„Það er allt annað að dansa fyrir óviðbúna áhorfendur úti á götu en að standa upp á sviði. Það kom okkur á óvart hversu auðvelt það er að gleyma sér í dansinum og forvitnilegt að taka eftir viðbrögðum vegfarenda,“ segir Snæfríður en hana má sjá dansandi um miðbæ Reykjavíkur í sumar ásamt Hildi Margréti. Saman mynda þær dansdúettinn Brak og hafa starfað saman í eitt ár. Í ár, rétt eins og í fyrra, fá þær tækifæri til að vera hluti af listhópum Hins hússins og gleðja miðbæinn með dansi.

„Við erum rosalega þakklátar að fá að gera það sem okkur finnst skemmtilegast í sumar. Við komum fram nokkrum sinnum í mánuði og á hátíðardögum eins og á menningarnótt,“ segir Snæfríður en stelpunum er einnig frjálst að fara niður í bæ og dansa hvenær sem þær eru tilbúnar með nýtt atriði.

Snæfríður og Hildur Margrét, eða Mæja eins og hún er kölluð, eru báðar á lokaári Listdansskóla Íslands og stefna á áframhaldandi dansnám í framtíðinni. Í dansatriðum sínum velta þær fyrir sér hvers konar dans vekur helst áhuga áhorfenda. „Við erum að prófa okkur áfram og reynum að svara spurningum eins og til dæmis hversu oft er hægt að endurtaka spor án þess að áhugi áhorfenda dvíni og hvort fólki finnist áhugaverðara að horfa á eitt fallegt og þægilegt eða eitthvað sem er ögrandi fyrir augað?“

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.