Innlent

Hleranir: Síminn kemur af fjöllum

Síminn kemur af fjöllum og kannast ekki við að háttsettur maður hjá móðurfélaginu hafi verið látinn fara vegna gruns um að hann hafi lekið því til grunaðs fjárglæframanns að sími hans væri hleraður.

Embætti sérstaks saksóknara hefur látið hlera síma manna sem grunaðir eru um sitthvað misjafnt í aðdraganda efnahagshrunsins. Í Fréttablaðinu í morgun kemur fram að grunur hafi vaknað hjá embættinu sumarið 2009 að hinir hleruðu hafi fengið vísbendingar um að símar þeirra væru hleraðir.

Fréttastofa fékk staðfest í morgun að embætti sérstaks saksóknara hefði sent lögreglu tvær kærur vegna gruns um að starfsmenn tveggja símafyrirtækja hafi varað hleraða einstaklinga við.

Í öðru tilvikinu var háttsettur maður hjá Skiptum - móðurfélagi Símans - kærður en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var hann yfirheyrður hjá lögreglu og hefur látið af störfum. Margrét Stefánsdóttir upplýsingafulltrúi Símans segir menn hafa komið af fjöllum við lestur Fréttablaðsins í morgun, en Síminn sé skuldbundinn til að hlera fyrir lögreglu að undangengnum dómsúrskurði. Um tvo aðila sé að ræða sem sjái um það og yfirmenn fyrirtækisins fái ekki upplýsingar um málin.

Margrét segir að búið sé að ræða við þessa einstaklinga og fram hafi komið að þeir hafi ekki brotið þá þagnarskyldu sem á þeim hvílir.

Margrét segir ennfremur að lögfræðingur fyrirtækisins hefði fengið þær upplýsingar hjá lögreglu að hún gerði engar athugasemdir við framkvæmd hlerana hjá Símanum. Kæran beindist einvörðungu að tilteknum einstaklingi, en ekki fyrirtækinu sem slíku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×