Fótbolti

Ólafur: Þetta var kærkomið stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Íslands.
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Íslands. Mynd/Vilhelm
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Íslands, fagnaði fyrsta stiginu í undankeppni EM eftir markalaust jafntefli á móti Kýpur í kvöld. Íslenska liðið hafði tapað fyrstu þremur leikjum sínum en náði nú í sitt fyrsta stig þó að liðið sitji ennþá á botni riðilsins.

„Þetta var kærkomið stig. Við vorum frekar daprir í fyrri hálfleik, við vorum ágætir varnarlega en sóknarlega vorum við mjög daprir. Okkur hélst illa á boltanum og við vorukm hræddir og stressaðir. Við fórum yfir það í hálfleik og við vorum heldur betri á boltanum í seinni hálfleik. Seinni hálfleikurinn var heilt yfir betri," sagði Ólafur Jóhannesson í samtali við Arnar Björnsson á Stöð 2 Sport eftir leik.

„Ég var að sjálfsögðu sáttastur við að halda markinu hreinu og það var markmiðið okkar númer eitt, tvö og þrjú í þessum leik. Ég var mjög ánægður með vinnuna á mönnum og  vinnsluna í liðinu. Þegar við spilum á móti þessum flinku liðum sem eru mikið með boltann þá hlaupum við ótrúlega mikið. Strákarnir hlupu ótrúlega mikið í þessum leik," sagði Ólafur.

„Stefán Logi varði vítið og það var mjög vel gert hjá honum," sagði Ólafur um Stefán Loga sem varði víti á 21.mínútu og var besti maður íslenska liðsins í leiknum.

„Við vissum það að því lengur sem við héldum þeim í núllinu þá færu þeir að taka meiri áhættu og myndu opna sig. Við áttum tvisvar til þrisvar tækifæri á því að koma okkur í mjög gott færi. Vonandi tekst það næst," sagði Ólafur.

„Ég er sáttur því mér finnst mjög fínt að ná í stig hérna. Auðvitað vilja allir fá þrjú stig sem eru að taka þátt í fótboltaleikjum. Ég sætti mig alveg við eitt stig og þetta stig er mjög kærkomið og gott til að byggja ofan á," sagði Ólafur.

„Auðvitað var maður hræddur um að fá á sig mark en jafnframt héldum við í vonina um að við gætum komist í gegn og stolið leiknum," sagði Ólafur að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×