Innlent

Fálki í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn eftir árekstur við flutningabíl

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fálkinn unir sér vel í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
Fálkinn unir sér vel í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
Myndarlegur kvenfálki dvelur um þessar mundir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, en það var Ólafur Nielsen á Náttúrufræðistofnun Íslands sem kom með fálkann í garðinn. Fálkinn varð fyrir þeim óvenjulegu hremmingum að hann lenti framan á rúðu flutningabíls sem var á ferð við Staðastað á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Bílstjórinn sem heitir Sveinn Haukur sá þúst á veginum framundan, sem reyndist vera fálki, sem skyndilega flaug upp og stefndi fyrst frá bílnum. Fálkinn breytti um stefnu og flaug á framrúðuna og féll til jarðar í vegkantinum. Þá var Sveinn Haukur þess fullviss að fálkinn væri dauður og tók hann því upp og setti í kassa á utanverðum bílnum sem hann annars geymir keðjurnar í.

Eftir um 20 kílómetra akstur athugaði Sveinn Haukur með fálkann sem tók á móti honum með útbreidda vængina þegar hann opnaði kassann. Fálkinn hafði sem sé ekki drepist við áreksturinn og Sveinn Haukur ók því með hann í Borgarnes þar sem hann býr og fann handa honum vistlegri kassa. Hann hafði samband við Náttúrufræðistofnun og fyrir tilstuðlan Ólafs Nielsen var hann færður í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn.

Fálkinn hefur nú dvalið í garðinum í tæpa viku og mun dvelja þar áfram fram yfir jól og þiggur að vonum kræsingar þær sem dýrahirðar garðsins reiða fram fyrir hann. Starfsmenn garðsins segja að tíminn leiði í ljós hvort hann nái sér að fullu, en fálkanum verður sleppt um leið og tækifæri gefst til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×