Lífið

Vorum sneggri

Fréttablaðið/Vilhelm
Leikurinn fór 45-26 fyrir okkur. Úrslitin komu okkur nokkuð á óvart enda höfðum við engar væntingar," segir Kristinn Þór Sigurjónsson, varaformaður Rugby-félags Reykjavíkur, sem tók á sunnudaginn á móti Thunderbird Old Boys rugby-liðinu frá Bandaríkjunum. Leikurinn fór fram á Vodafonevellinum og var fyrsti opinberi rugby-leikurinn hér á landi.

„Við unnum á því að vera yngri og sneggri. Þeir voru hins vegar tæknilega betri og áttu betri högg og tæklingar enda mun reynslumeiri," segir Kristinn.

Rugby-íþróttin er ekki gömul í hettunni hér á landi. „Við byrjuðum í febrúar í fyrra að hittast einu sinni í viku svona í gamni. Síðan hljóp kraftur í starfið þegar við skráðum okkur á Scandinavian Open-mótið sem fram fór í Kaupmannahöfn," segir Kristinn en rugby-íþróttin var viðurkennd af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, ÍSÍ, í febrúar 2011.

Mikill hugur er í Kristni og félögum. „Það bendir allt til þess að keppt verði í rugby á smáþjóðaleikunum í Lúxemborg árið 2013 og við ætlum þangað. Svo stefnum við á sigur á smáþjóðaleikunum á Íslandi 2015," segir hann kokhraustur.

Í Rugby-félagi Reykjavíkur eru nú skráðir 40 meðlimir í tveimur liðum. „Við æfum hins vegar saman en framtíðarstefnan er að skipta okkur upp og koma upp fleiri liðum," segir Kristinn og bætir við að annar draumur sé að koma upp kvennaliði en nú æfa fimm konur með Rugby-félaginu.

En hvað er svona heillandi við þessa íþrótt? „Það er samstaðan, krafturinn og félagsskapurinn," svarar Kristinn og segir marga finna sig í rugby-íþróttinni sem ekki hafi líkað nógu vel í öðrum íþróttagreinum. Hann segir marga í félaginu koma úr öðrum íþróttagreinum á borð við handbolta, fótbolta og jafnvel júdó. „Við Íslendingar ættum vel að geta náð árangri í þessari íþrótt enda lifnar nokkurs konar víkingaandi í leikmönnum þegar þeir spila," segir Kristinn glaðlega.

Áhugasamir geta leitað frekari upplýsinga á www.rugby.is.

solveig@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.