Lífið

Steed Lord leikur og leikstýrir auglýsingu

Hljómsveitin Steed Lord leikstýrir og leikur í nýrri auglýsingu fyrir sænska tískumerkið WeSC. Auk þess heyrist lag sveitarinnar, Don‘t Hurt Love, í auglýsingunni.

Auglýsingin er fyrir sólgleraugu sem WeSC hannar í samstarfi við ítalska fyrirtækið Super. Svala Björgvinsdóttir, söngkona sveitarinnar, segir tökurnar hafa gengið vel og að fyrirtækin tvö séu himinlifandi yfir afrakstrinum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Steed Lord situr fyrir í auglýsingum WeSC því hljómsveitin hefur unnið náið með fyrirtækinu undanfarin ár. „Samstarf okkar hófst árið 2007 þegar við vorum beðin um að taka þátt í lagakeppni á vegum WeSC, Vice Magazine og Universal Records. Við gerðum það og unnum og höfum setið fyrir í öllum auglýsingum og bæklingum þeirra síðan þá. Fyrirtækið notar aðeins venjulegt fólk, listamenn og snjó- og hjólabrettafólk í auglýsingar sínar af því að það hentar stefnu fyrirtækisins betur.“

Annars er það að frétta af sveitinni að hún lauk nýverið tökum á nýju tónlistarmyndbandi sem unnið var í samstarfi við danshöfundinn Sonyu, sem er þekkt úr sjónvarpsþáttunum So You Think You Can Dance.

„Síðan erum við að fara í það stóra verkefni að semja og taka upp næstu plötu. Við höfum ekki gefið út plötu í fullri lengd síðan Truth Serum kom út árið 2008 og við hlökkum mikið til að takast á við það verkefni,“ segir Svala. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.