Enski boltinn

Ramires: Ég þurfti bara að fá minn tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíumaðurinn Ramires er búinn að vinna sér fast sæti í byrjunarliði Chelsea og vann hug og hjörtu stuðningsmanna félagsins með því að skora frábært mark á móti Manchester City um síðustu helgi.

Ramires sem er enn bara 23 ára gamall kom til Chelsea frá Benfica en það hefur tekið sinn tíma fyrir hann að aðlagast enska boltanum. Í markinu á sunnudaginn sýndi hann hinsvegar sannkallaða brasilíska sambatakta þegar hann sólaði sig í gegnum vörn City. Það má sjá markið hans með því að skoða svipmyndir frá leiknum hér að ofan.

„Við vissum það alltaf að það myndi taka sinn tíma fyrir mig að komast inn í hlutina," sagði Ramires við Daily Mail.

„Það kom því mér ekkert á óvart því það tekur alla Brasilíumenn tíma að komast inn í enska boltann. Enginn okkar sleppur við það," sagði Ramires.

„Lucas hjá Liverpool fór líka í gegnum það sem ég er að fara í gegnum og nú eru menn farnir að meta hans spilamennsku. Þetta gekk kannski enn hraðar hjá mér," sagði Ramires.

Brasilíumaðurinn David Luiz hefur líka slegið í gegn hjá Chelsea síðan að hann kom frá Benfica í janúarglugganum.

„Við David Luiz áttum góða tíma hjá Benfica og ég er viss um það það bætast við margar góðar stundir hjá Chelsea. Hver veit nema að við verðum mjög lengi saman og þá í landsliðinu líka," sagði Ramires.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×