Lífið

Sturtusápa væntanleg frá Silver

Björgvin Páll Gústavsson hefur keypt eignarhlutinn af Loga Geirssyni og boðar sturtusápu frá Silver á næstunni.
Björgvin Páll Gústavsson hefur keypt eignarhlutinn af Loga Geirssyni og boðar sturtusápu frá Silver á næstunni. Mynd/Anton
„Logi er ekki alveg hættur, ég er bara búinn að kaupa hans hlut og er því einn eigandi fyrirtækisins. Logi verður áfram stjórnarformaður og andlit fyrirtækisins,“ segir Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handbolta og snyrtivörumógúll.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Logi Geirsson væri hættur afskiptum af Silver-hárvörufyrirtækinu sem landsliðsfélagarnir stofnuðu eftir glæsilegan árangur landsliðsins á Ólympíuleikunum í Peking. Logi staðfesti það í samtali við Fréttablaðið og sagðist ekki hafa haft tíma til að sinna verkefninu sem skyldi. Björgvin vill þó meina að skyttan úr FH hafi enn hlutverki að gegna.

Markvörðurinn var staddur í brúðkaupsferð sinni þegar Fréttablaðið náði tali af honum og hann upplýsti að von væri á nýjum vörum innan skamms; sturtusápu fyrir konur og karla. „Við erum að fara af stað með auglýsingaherferð á næstunni þar sem Aron Pálmarsson verður í aðalhlutverki,“ segir Björgvin og bætir því við að fleiri vörur séu í þróun. „Við höfum haft hægt um okkur að undanförnu en ætlum að setja þetta í gang á næstu vikum.“

Leikmaðurinn skipti nýverið um félag og heldur til Magdeburg í Þýskalandi. Félagið hefur þegar óskað eftir því að fá að selja Silver-gelið í búðinni sinni og Björgvin er himinlifandi með viðtökurnar við gelinu hér á landi, það hafi selst betur en hann hafi þorað að vona. „Við vorum búnir að selja þrjátíu þúsund dósir síðast þegar við gáðum,“ segir Björgvin en það þýðir sölu upp á tæpar 45 milljónir ef miðað er við verð á netinu.

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.