Fótbolti

Kolbeinn: Verð fljótur að jafna mig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kolbeinn verður kominn aftur á ferðina eftir nokkra daga.
nordic photos/afp
Kolbeinn verður kominn aftur á ferðina eftir nokkra daga. nordic photos/afp
Landsliðsmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson fór meiddur af velli í leik AZ Alkmaar um helgina. Eftir leikinn gaf þjálfari liðsins í skyn að meiðsli Kolbeins væru það alvarleg að hann spilaði kannski ekki meira í vetur.

"Ég spurði hann út í þetta og hann segist ekki hafa svarað alveg þannig. Hann sagði líklegt að ég væri tognaður en ef ég væri óheppinn væri veturinn kannski farinn hjá mér," sagði Kolbeinn um þessi ummæli en hann er sem betur fer ekki alvarlega meiddur.

"Það er ekkert að mér. Ég var tæklaður illa í ökklann. Ég reyndi að halda áfram en gat það ekki. Fyrst ég gat hreyft mig eftir tæklinguna óttaðist ég aldrei að þetta væri eitthvað alvarlegt. Ég er aðeins tognaður og þarf að hvíla mig í eina til tvær vikur. Ég verð fljótur að jafna mig á þessu," sagði Kolbeinn brattur en það hefði orðið mikið áfall fyrir U-21 árs landsliðið ef hann væri alvarlega meiddur.

Kolbeinn hefur spilað einkar vel í vetur og verið iðinn við markaskorun. Talsvert hefur verið greint frá áhuga annarra liða á honum og hafa nöfn liða eins og Newcastle og Feyenoord verið nefnd í því sambandi.

"Ég finn fyrir miklum áhuga. Ég get ekki neitað því. Ég er annars ekkert að velta mér upp úr slíku og einbeiti mér að því að spila fótbolta. Svo sjáum við bara hvað gerist í kjölfarið.".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×