Lífið

Sigurjón skrifar hryllingsmynd

Sigurjón Kjartansson er að skrifa handrit að hryllingsmynd sem heitir Stúlkan og Djöfullinn. Hann er jafnframt að undirbúa þriðju þáttaröðina af Pressu.Fréttablaðið/GVA
Sigurjón Kjartansson er að skrifa handrit að hryllingsmynd sem heitir Stúlkan og Djöfullinn. Hann er jafnframt að undirbúa þriðju þáttaröðina af Pressu.Fréttablaðið/GVA
„Ég ætla ekki að gefa neitt nákvæmt upp en get þó sagt að þetta er lítil hrollvekja. Ég er að þróa hana og hún er á mjög viðkvæmu en spennandi stigi um þessar mundir,“ segir Sigurjón Kjartansson, handritshöfundur. Hann fékk nýverið handritastyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands fyrir kvikmyndina Stúlkan og djöfullinn.

Sigurjón er mikill aðdáandi hryllingsmynda og hann hefur lengi dreymt um að skrifa handrit að slíkri mynd. „Ég er þeim megin í tilverunni að mér finnst ég vera tilbúinn að gera hryllingsmynd og leggja þannig lóð mín á vogarskálar þessa kvikmyndaflokks.“ Að mati Sigurjóns hafa hryllingsmyndir ekki alltaf notið sannmælis hjá sjálfskipuðum kvikmyndaspekúlöntum en viðurkennir jafnframt að það sé afskaplega vandmeðfarin list að gera góða hrollvekju. Aðspurður vill Sigurjón ekkert tjá sig um hvort hryllingsmyndin sem hann er með í smíðum sé í blóðugum splatter-stíl eða tilheyri sálartryllis-flórunni. „Það er bara komin tími til að gera alvöru, íslenska hryllingsmynd. Nægur er efniviðurinn.“

Dagskrá Sigurjóns er þéttsetin því hann staðfestir að undirbúningur fyrir þriðju þáttaröðina af Pressu sé þegar hafinn. „Við erum komnir með gott persónugallerí sem er þægilegt að vinna úr og við hlökkum til að vefa nýja þræði í kringum þær.“-fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.