Innlent

Ranglega staðið að ráðningu forstjóra Íslandsstofu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Friðrik Pálsson er stjórnarformaður Íslandsstofu.
Friðrik Pálsson er stjórnarformaður Íslandsstofu.
Ranglega var staðið að ráðningu framkvæmdastjóra Íslandsstofu þegar stofnunin var sett á fót, segir í nýju áliti Umboðsmanns Alþingis. Umsækjandi um stöðuna kvartaði til Umboðsmanns Alþingis vegna málsmeðferðar við ráðningu í starfið.

Í kvörtuninni kom fram að viðkomandi umsækjandi hefði óskað eftir upplýsingum frá stjórn Íslandsstofu um hvaða umfjöllun og meðferð umsókn hans um starfið hefði fengið, aðgangi að hæfnismati sem lá til grundvallar ákvörðun um að verða ekki við beiðni hans um viðtal vegna starfsumsóknarinnar og rökstuðningi fyrir ákvörðun um ráðningu í starfið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Því hefði hins vegar verið hafnað með vísan til þess að Íslandsstofa hefði stöðu einkaréttarlegs aðila.

Umboðsmaður Alþingis kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Íslandsstofa sé stjórnvald, en ekki einkaaðili, og hefði því borið að fylgja stjórnsýslulögum, óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins og ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, við ákvörðun um ráðningu í starf framkvæmdastjóra.

Umboðsmaður beindi þess vegna þeim tilmælum til Íslandsstofu um að taka beiðni viðkomandi umsækjanda um rökstuðning og aðgang að gögnum til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og að haga framvegis störfum sínum í samræmi við þær reglur stjórnsýsluréttarins, skráðar og óskráðar, sem stjórnvöldum ber almennt að fara eftir í störfum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×