„Þarna verða leiktæki sem jafnast á við rússibanareið,“ segir Eyþór Guðjónsson, framkvæmdastjóri Skemmtigarðsins.
Framkvæmdir að risavöxnum skemmtigarði í Vetrararði Smáralindar hefjast í næstu viku. Meira en 500 milljónum króna verður varið í verkefnið og stefnt er á að opna í haust.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi í rúm tvö ár og Eyþór hefur skoðað fjölmarga skemmtigarða í verslunarmiðstöðvum víða um heim. „Langflestar nýjar verslunarmiðstöðvar sem eru byggðar í dag eru með skemmtigarð,“ segir hann. „Þetta er risastór tækniveröld, með öllu því nýjasta sem er að finna í heimi afþreyingar.“
Byggt verður milligólf yfir Vetrargarðinn og verður Skemmtigarðurinn því rekinn á rúmlega 2.000 fermetra svæði á tveimur hæðum.
Þetta er gríðarlegur kostnaður, hvernig er svona verkefni fjármagnað í kreppu?
„Með fjárfestum. Það eru sterkir íslenskir fjárfestar á bak við verkefnið.“
Vilja þeir láta nafns síns getið?
„Nei, en þetta er venjulegt íslenskt fjölskyldufólk.“
Eyþór segir alla aldurshópa geta fundið afþreyingu við sitt hæfi í skemmtigarðinum. „Á neðri hæðinni verður afþreying fyrir yngri kynslóðina og fjölskyldur og á efri hæðinni verður afþreying fyrir unga fólkið og fullorðna. Svo blandast þetta saman,“ segir Eyþór. „Það vantar svona skemmtigarð á Íslandi.“