Lífið

Uppvakningar kynna land og þjóð

Mynd/Stefán
„Ég hef mjög gaman af því að teikna zombía og hef verið mikið zombí-nörd lengi," segir Hugleikur Dagsson, en hann myndskreytti bókina Zombie Iceland eftir Nönnu Árnadóttur og kemur sagan út í dag.

Hugleikur segir bókina fjalla um ungt fólk í Vesturbænum í Reykjavík sem þarf að bregðast við innrás uppvakninga, eða eins og Hugleikur kallar þá: zombía. „Það má segja að sagan sé hefðbundið zombía-ævintýri eins og við þekkjum úr bíómyndunum, þegar hinir dauðu byrja að ganga og bera með sér þennan smitvírus,“ segir Hugleikur. Hann segir einnig að bókin sé góð landkynning, en hún er skrifuð á ensku.

„Bókin er túristabók á ensku, ætluð alþjóðlegum markaði. Á flestum síðum bókarinnar eru neðanmálsgreinar sem útskýra eitthvað alíslenskt sem kemur fram í sögunni, eins og skyr og lopapeysur og svo framvegis. Það er meira að segja neðanmálsgrein um Örn Árnason," segir Hugleikur og kveðst virkilega ánægður með bókina, en það er bókaforlag hans Ókei bæ-kur sem gefur söguna út. "Við fórum líka í samstarf við Gogoyoko en bókinni fylgir lagalisti sem ein aðalpersónan í bókinni bjó til. Þetta eru lög sem aðalpersónan hlustar á þegar hún er að berjast við zombía. Á þessum lagalista má finna bestu lögin í íslenskri tónlist," segir Hugleikur, og bætir við að hljómsveitirnar Hjaltalín, Retro Stefson, Múm, Agent Fresco og FM Belfast eigi sín lög á listanum.

Aðstandendur bókarinnar halda útgáfupartí á Bakkusi á morgun og hvetur Hugleikur fólk til þess að mæta í búningi. "Þeir þrír sem mæta í flottasta zombí -búningnum fá gefins bók."

- ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.