Innlent

Tvö þúsund manns í Bláfjöllum

Tvö þúsund manns renndu sér niður brekkurnar í Bláfjöllum á opnunardeginum en frábært skíðafæri var þar.
Tvö þúsund manns renndu sér niður brekkurnar í Bláfjöllum á opnunardeginum en frábært skíðafæri var þar. Fréttablaðið/anton
„Það er frábært færi. Við getum ekki beðið um betri opnunardag,“ sagði Magnús Árnason, framkvæmdastjóri Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins en Bláfjöll opnuðu skíðasvæðið fyrir almenning í gær.

Tvö þúsund manns sóttu Bláfjöll heim á þessum fyrsta degi. „Maður getur alltaf búist við hnökrum hér og þar á fyrsta deginum svo þetta var þægileg byrjun á skíðavetrinum,“ segir Magnús en færið í brekkunum var mjög gott þó að lítið væri um snjó utan troðinna brauta. Stólalyftur í Kóngsgili voru opnar sem og kaðall og diskalyftur í Suðurgili. Einnig var barnalyftan opin.

„Við erum búin að bæta í snjógirðingar út um allt og það hefur hjálpað okkur mikið að safna snjó í brekkurnar. Ef við værum með snjóvélar værum við hins vegar búnir að framleiða snjó fyrir allan veturinn því að það er búið að vera svo mikið frost og stilla undanfarnar vikur,“ segir Magnús en hann á þó von á góðu skíðafæri út næstu viku og kannski þá næstu líka. „Við höfum opið á meðan veður leyfir og hvetjum bara alla til að skella sér á skíði í jólaundirbúningnum.“ Skíðasvæði Bláfjalla er opið frá klukkan 14 á virkum dögum.- áp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×