Fótbolti

Fær tæpar 3 milljónir á mánuði frá FIFA

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mohamed Bin Hammam.
Mohamed Bin Hammam.
Mohamed Bin Hammam, sem ætlar að bjóða sig fram til forseta FIFA, er eini áhrifamaðurinn hjá FIFA sem er tilbúinn að greina frá því hvað hann fær í laun hjá FIFA.

Sports Illustrated sendi fyrirspurn á alla meðlimi framkvæmdastjórnar FIFA hvað þeir fengju í laun og neituðu allir að gefa það upp nema Bin Hammam.

Bin Hammam sagðist hafa fengið 32,5 milljónir króna á síðasta ári frá FIFA en það gera 2,7 milljónir króna á mánuði. Hammam er einnig forseti asíska knattspyrnusambandsins og fær eflaust vel greitt fyrir það líka.

Bin Hammam hefur þó ekki tekið við fénu en það liggur óhreyft á hans nafni í bókhaldi FIFA. Hann segir marga aðra meðlimi framkvæmdastjórnarinnar gera slíkt hið sama.

"Við fáum engin laun frá FIFA. Aðeins bónusa sem og greiddan kostnað vegna vinnu og útlagðs kostnaðar," sagði Bin Hammam.

Meðlimir framkvæmdastjórnar FIFA hafa þó margoft verið sakaðir um mútuþægni en Bin Hammam vill endurbyggja orðspor FIFA verði hann kjörinn forseti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×