Innlent

85% landsmanna vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni

Mikill meirihluti landsmanna eða um áttatíu og fimm prósent eru fylgjandi því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Þetta sýnir ný skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins.

Núgildandi aðalskipulag borgarinnar gerir ráð fyrir að byrjað verði að færa Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni árið 2016 eða eftir rúm fjögur ár. Strax þá á að loka tveimur flugbrautum. Flugvöllurinn á síðan að vera alveg farinn úr árið 2024.

Fyrir rúmum áratug kusu borgarbúar um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. Þá vildi rétt rúmur helmingur að hann færi.

Margt hefur breyst síðan þá en ný skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins sýnir að nú vilja rúm áttatíu prósent borgarbúa að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Þannig eru 82% borgarbúa fylgjandi því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni en 18% eru andvíg því. Nokkuð fleiri á landsbyggðinni vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni eða 88% en 12% eru því andvíg.

Hringt var í rúmlega átta hundruð manns, sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá, dagana sjöunda og áttunda desember. Rúm nítíu og átta prósent tóku afstöðu til spurningarinnar. 54 % sögðust vera mjög fylgjandi því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, rúm 17% sögðust frekar fylgjandi því, 15% voru hlutlaus, rúm fimm prósent frekar andvíg og rúm átta prósent sögðust mjög andvíg því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Af þeim sem voru annað hvort með eða á móti vildu 84% að flugvöllurinn verði áfram en 16% að hann fari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×