Innlent

Skammgóður vermir - kuldaboli kemur aftur

Það verður líklegast enn hægt að leika sér eitthvað á skautum.
Það verður líklegast enn hægt að leika sér eitthvað á skautum. mynd/ stefán.
Frostlaust hefur verið víða á landinu í morgun en svo var einnig í flestum byggðum landsins í gær, í fyrsta sinn frá því kuldakastið hófst í lok nóvember. Hitinn hefur sumstaðar skriðið nokkrar gráður yfir núllið.

Þannig var fjögurra stigi hiti á Ísafirði í morgun og víða þriggja stiga hiti við ströndina umhverfis landið, eins og á Siglufirði, í Kelduhverfi, á Dalatanga, Fagurhólsmýri, í Vestmannaeyjum og undir Akrafjalli. Í Reykjavík fór hitinn í gær upp í tæpar tvær gráður en var við frostmark í morgun.

Áfram er spáð mildu veðri á landinu á morgun og gæti hiti þá víða farið í fjórar gráður.

Þíðan þessa dagana virðist þó ætla að verða skammgóður vermir því strax á miðvikudag gerir Veðurstofan ráð fyrir að frysti um land allt á ný með jafnvel yfir tíu stiga gaddi inn til landsins. Langtímaspár gera svo ráð fyrir kulda eins langt og þær ná. Norski veðurvefurinn yr.no spáir þannig frostakafla á Íslandi að minnsta kosti til 21.desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×