Innlent

Landflóttaskeiðið orðið það lengsta í sögunni

Landflóttaskeiðið frá hruni er orðið það lengsta svo vitað sé í íslenskri þjóðarsögu, samkvæmt greiningu í tímaritinu Frjálsri verslun. Yfir sex þúsund íslenskir ríkisborgarar hafa farið frá landinu síðustu þrjú ár, umfram aðflutta.

Sögulegur fjöldi einstaklinga hefur flúið af landi brott frá hruni eftir því sem fram kemur í ítarlegri úttekt Frjálsrar verslunar.  Greinarhöfundur telur að á síðustu fjörutíu árum megi greina sex landflóttaskeið - en að það nýjasta frá bankahruni skeri sig úr. Jón G. Hauksson ritstjóri Frjálsrar verslunar segir að sitthvað hafi bent til að heldur væri að draga úr flutningum íslenskra ríkisborgara frá landinu en nú sýni tölur að nærri tvöfalt fleiri fluttu til Noregs, umfram þá sem komu heim, á þriðja ársfjórðungi heldur en þeim fyrsta.

Rétt rúmur mánuður er síðan Ólöf Garðarsdóttir mannfræðingur sagði í fréttum Stöðvar tvö - að búferlaflutningur frá hruni væru, öfugt við úttekt frjálsrar verslunar, ekki miklir í sögulegu samhengi. „Tölurnar, til dæmis, fyrir allt árið 2010 eru mjög sambærilegar við það sem var um miðbik 10. áratugarins. Þá voru brottfluttir Íslendingar umfram aðflutta um 1.600 eða rúmlega 0,6% af heildarmannfjölda. Í fyrra  voru þær um 1.700 sem gerir rúmt hálft prósent af  mannfjölda, en þess ber þó að geta að flutningstölur  voru hærri í hitteðfyrra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×