Innlent

Hjálpræðisherinn verður ekki með matarúthlutun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Ingimarsson hjá Hjálpræðishernum.
Sigurður Ingimarsson hjá Hjálpræðishernum.
Hjálpræðisherinn í Reykjavík hefur ákveðið að vera ekki með matarúthlutun í ár eins og síðastliðin ár. Ástæðan er bág fjárhagsstaða Hjálpræðishersins. Hjálpræðisherinn verður þó eftir sem áður með jólamat á aðfangadag og fangahjálp auk þess að veita heimilislausum mat á dagsetrinu á Eyjaslóð.

„Síðasta ár var erfitt að mæta allri þörfinni ,þar sem útdeilt var matargjöfum allt árið, sem að lokum tæmdi sjóðinn sem ætlaður var til hjálpar. Hjálpræðisherinn í Reykjavík hefur ákveðið að vera í samstarfi við aðra sem sinna hjálparstörfum, og mun þá styrkja önnur hjálparsamtök með ýmsum hætti,“ segir Sigurður Ingimarsson, forstöðumaður hjá Hjálpræðishernum.  

Sigurður segir að aðaláhersla verði lögð á jólamatinn á aðfangadag klukkan sex sem sé eitt af stóru verkefnum þeirra. Þar komi yfirleitt um 200 manns í mat, og margir sjálfboðaliðar komi þar mikið við sögu. „Við erum þakklát öllum þeim fyrirtækjum sem styrkja okkur í þessu, en samt er töluverður kostnaður sem fylgir því að hafa svona marga í mat, svo þess vegna erum við á mörgum stöðum í bænum, með svo kallaða jólapotta, sem er okkar innsöfnun sem er eyrnamerkt velferðarstarfinu okkar, sem snýst að því að geta hjálpað með mat og annað,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að draumastaða Hjálpræðishersins sé að sjálfsögðu að þurfa ekki að hafa áhyggjur að hafa ekki næga peninga til að geta hjálpað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×