Innlent

Dýrum vímuefnum skipt út fyrir ódýrari

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir á Vogi segir vísbendingar um að dýrari vímuefnum hafi verið skipt út fyrir ódýrari.
Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir á Vogi segir vísbendingar um að dýrari vímuefnum hafi verið skipt út fyrir ódýrari. mynd/ stefán.
Verð á vímuefnum hefur farið lækkandi undanfarin tvö ár, samkvæmt verðmælingum sem SÁÁ gerir meðal sjúklinga á Vogi. Þessar verðkannanir hafa verið gerðar mánaðarlega síðan um aldamót og sýna vel verðþróun á þessum markaði. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir vísbendingar um að menn séu að skipta dýrari vímuefnum út fyrir þau ódýrari.

Þegar litið er yfir tímabilið allt kemur í ljós að vímuefnaverð hélt í við verð á áfengi allt fram yfir efnahagshrunið 2008. Þegar áfengi hækkaði vegna gengisfalls krónunnar og hækkunar áfengisgjalds elti vímuefnaverðið þessa hækkun. Í ársbyrjun 2010 skildi á milli í fyrsta skipti og á meðan áfengi hélt áfram að hækka lítillega lækkaðu vímuefnin umtalsvert. Og sú lækkun hefur haldið.

Þórarinn Tyrfingsson segir að það sé mjög flókið að túlka þessar niðurstöður. „Þýðir það það að eftirspurn hafi minnkað eða þýðir þetta það að menn hafi bara minni pening á milli handanna. Það þýðir ekki að bjóða vöru sem enginn hefur efni á að kaupa," segir Þórarinn. Þórarinn segir að framboð á ákveðnum vímuefnum hafi minnkað og þá hafi önnur vímuefni komið í staðinn. „Hlutdeild áfengis jókst og hlutdeild lyfja jókst, " segir Þórarinn. Þar á hann fyrst og fremst við ritalin sem kom inn í staðinn fyrir önnur örvandi efni eins og kókaín, amfetamín og e-pillur. „Ég ímynda mér að það hafi verið fyrst og fremst verið efnahagslegar ástæður sem voru fyrir því að framboð á ólöglegu amfetamíni, kókaíni og e-pillum minnkaði," segir Þórarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×