Innlent

Snjóbrettaslysum fjölgað verulega hér á landi

Lillý Valgerður Pétursdóttir. skrifar
Snjóbrettaslysum hefur fjölgað hér á landi með auknum vinsældum brettanna. Rifbeinsbrot og áverkar á milta eru á meðal þess sem læknar sjá eftir slík slys. Yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum segir öryggisbúnað hafa bjargað lífum.

Nú þegar snjórinn er kominn og búið er opna skíðasvæðin fjölgar þeim sem leita bráðamóttöku Landspítalans vegna slysa í brekkunum.

„Á meðan það er snjór þá sjáum við þessi slys svona nokkuð oft," segir Elísabet Benedikz, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum.

Þannig leiti í hverri viku nokkrir á bráðamóttökuna vegna slíkra slysa.

„Sérstaklega eftir helgar þá koma alltaf nokkrir eftir skíða- og snjóbrettaslys," segir Elísabet,

Elísabet segir snjóbrettaslysum hafa fjölgað síðustu ár.

„Eftir því sem vinsældir snjóbretta hafa aukist því meira ber á slysum og sumir segja að það hafi orðið svona tilfærsla frá skíðaslysum yfir í snjóbrettaslys. Við erum mest að sjá útlimaáverka, axlaráverka, ekki svo mikið af alvarlegum áverkum sem betur fer en það hafa komið fyrir rifbrot og jafnvel miltisáverkar."

Þá segir hún stökk á snjóbrettum geta verið varhugaverð. En með því séu menn í meiri hættu að fá höfuðáverka og lenda í alvarlegri slysum.

Elísabet segir mikilvægt að skíða- og snjóbrettafólk hlífar og hjálma en dæmi séu um að öryggisbúnaður hafi bjargað mannslífum.

„Í dag það er hraði í brekkunum og margir í brekkunum. Að vera með hjálm getur bjargað lífi," segir Elísabet að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×