Innlent

Tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga fjórtán ára stúlku

Ungur karlmaður var á föstudaginn var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga fjórtán ára gamalli stúlku á Selfossi. Pilturinn var 17 ára gamall þegar brotið var framið en atburðurinn átti sér stað í júní síðastliðnum. Stúlkan greindi frá því fyrir rétti að pilturinn hafi dregið sig afsíðis og komið fram vilja sínum gagnvart henni. Hún hafi þráfaldlega beðið hann um að hætta en allt kom fyrir ekki.

Hann viðurkenndi að hafa haft samræði við stúlkuna en staðhæfði að það hefði verið með hennar vilja. Hann segist heldur ekki vitað að hún væri fjórtán ára gömul.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. „Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að ákærði hefur gerst sekur um alvarlegt kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku. Hún hlaut líkamlega áverka, sem hún ber ör eftir, og hefur þurft að þola andlegar þjáningar. Til refsilækkunar ber að líta til þess að ákærði var sjálfur barn að aldri. Ákærði á sér annars engar málsbætur. Að öllu þessu virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár, segir í dómnum. Hann er einnig dæmdur til að greiða foreldrum stúlkunnar 1200 þúsund krónur í bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×