Innlent

Blöskrar meðferð á fólki með lánsveð

Liðlega sjötugur faðir hefur í tvígang fengið neitun frá Fjármálaeftirlitinu um að Arionbanki verði skikkaður til að aflétta veði sem sonur hans fékk lánað í íbúð foreldra sinn svo sonurinn fái að njóta 110 prósenta leiðarinnar. Faðirinn segir fólk með lánsveð beitt ranglæti, og vill fara með málið fyrir dómstóla.

Hilmar Thorarensen og kona hans búa við Kaplaskjólsveg, en sonur þeirra keypti kjallaraíbúðina í húsinu árið 2006 á 14 milljónir króna. Hann fékk 100% lán, 11,2 milljónir voru með veði í kjallaraíbúðinni en síðan fékk hann lánað veð í efri hæðinni, íbúða foreldra hans, fyrir 2,8 milljónum króna. Nú standa lánin í 20,4 milljónum eða 5,4 milljónum yfir fasteignamati íbúðarinnar.

Sonur Hilmars stendur því uppi með 136% veðsetningu á íbúðinni sinni, en þar sem hluti veðsins er að láni uppfyllir hann ekki skilyrði fyrir því að fá afskrifað af láninu niður í 110%. „Af því að hann var með lánsveð þá var hann bara úti í kuldanum," segir Hilmar.

Hilmar kærði málið til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki í apríl - og krafðist þess að bankinn:

1) felldi niður hluta af lánum sonarins - í samræmi við 110 prósenta leiðina

2) og flytti lánsveðið af íbúð foreldranna á hans eigin íbúð.

Úrskurður féll í júní - kröfum Hilmars var hafnað - á þeim forsendum að ekki væri veðrými á kjallaraíbúðinni og að lánsveðið uppfyllti ekki skilyrði samkomulags sem stjórnvöld og lánastofnanir gerðu um m.a. 110% leiðina í desember í fyrra.

Hilmar var ósáttur við rökstuðninginn og óskaði eftir endurupptöku en í gær barst bréf - og endurupptöku var hafnað. Honum finnst einkennilegt að verið sé að bjarga heimilum frá yfirveðsetningu og skilja þennan hóp eftir. Hann ætlar því ekki að láta staðar numið, hefur haft samband við umboðsmann alþingis og íhugar að láta reyna á málið fyrir dómstólum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×