Innlent

Utanríkisráðherra væntanlega í forsvari fyrir Icesave málið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir sagði á Alþingi að hefðin væri sú að utanríkisráðherra væri í forsvari þegar mál færu fyrir EFTA dómstólinn.
Jóhanna Sigurðardóttir sagði á Alþingi að hefðin væri sú að utanríkisráðherra væri í forsvari þegar mál færu fyrir EFTA dómstólinn.
Íslandi hefur verið stefnt fyrir EFTA dómstólinn 10-12 sinnum frá árinu 1994, segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Fram kom í máli hennar á Alþingi í morgun að í öllum tilfellum hafi utanríkisráðherra verið falin forsjá málanna þegar komið var í þann farveg.

Þetta sagði Jóhanna þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði hana hvort efnahags- og viðskiptaráðherra myndi hafa forsjá yfir Icesave málinu áfram, en eins og kunnugt er urðu kaflaskil í gær þegar tilkynnt var að sú deila færi fyrir EFTA dómstólinn. Jóhanna sagði að í þessu tilfelli yrði litið til reynslunnar, en forsætisráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra kæmu að málinu jafnvel þótt utanríkisráðherra yrði í forsvari fyrir það.

Jóhanna sagði að allur kraftur yrði settur í að verja ítrustu hagsmuni Íslendinga. „Efnahags- og viðskiptaráðherra mun gegna veigamiklu hlutverki hver sem verður í forsvari fyrir það," segir hún. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð lögðu áherslu á að Árni Páll væri í forsvari fyrir málið.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði jafnframt að leitað yrði eftir aðstoð erlendra sérfræðinga við málareksturinn, því allt kapp yrði lagt á að vinna það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×