Innlent

Neftóbakið hækkar um þrjátíu prósent

Samþykkt var á Alþingi í dag að hækka tóbaksgjald á neftóbak um 75 prósent. Hækkunin gerir það að verkum að útsöluverð neftóbaks mun hækka um 30 prósent. Álfheiður Ingadóttir þingmaður VG og fyrrverandi heilbrigðisráðherra sagði við atkvæðagreiðsluna að hækkunin væri skref í rétta átt.

Hún benti á að neftóbakssala hefði þrefaldast frá aldamótum. „Aukningin er ekki hjá körlum gömlum til sveita eða hér hjá körlum á Alþingi Íslendinga, heldur hjá ungum drengjum sem taka neftóbakið í vörina," sagði Álfheiður og vísaði í rannsóknir. Hún sagði einnig þekkt að verðhækkanir á tóbaki hafi mest áhrif hjá ungu fólki og því væri hún samþykk tillögunni.

Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, sem einnig er fyrrverandi heilbrigðisráðherra, samþykkti einnig hækkunina og sagði að neftóbak væri raunar bannað víðast hvar í heiminum. Helst vildi hún banna neftóbak alfarið á Íslandi. Því miður hafi neyslan stóraukist á Íslandi og að ungir drengir væru að setja neftóbakið á vitlausan stað, það er að segja í vörina. Hún fullyrti einnig að þessi notkun auki líkur á krabbameini og því hefði hún viljað banna neftóbak alfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×