Innlent

Óprúttnir aðilar reyna að selja miða á ókeypis tónleika

Mugison.
Mugison.
Aðeins var hægt að skrá fjóra miða á hverja kennitölu þegar sótt var um miða á tónleika Mugison í Hörpunni. Samkvæmt heimildum Vísis hafa einhverjir aðilar boðið miða til sölu á Facebook-reikningum sínum. Í einu tilvikinu reyndi óprúttinn aðili að bjóða miðana til sölu á 2000 krónur.

Yfir 15.000 manns reyndu að tengjast miðasölukerfinu í dag þegar að opnað var fyrir úthlutun miða á ókeypis tónleika tónlistarmannsins í Hörpu. Aðdáendur Mugisons kepptust um að komast inn á kerfið á hádegi og lá það niðri um tíma vegna mikils álags. Mugison ákvað að bæta við þriðju tónleikunum þegar ljóst var hversu mikil eftirspurnin var.

Miðasölukerfið komst í lag aftur og engir miðar eru nú eftir á þrenna tónleika Mugison sem verða kl. 19.30, 22.00 og á miðnætti þann 22.desember. Eldborgarsalurinn í Hörpu tekur mest 1800 manns í sæti. Allt í allt munu því um 5.400 manns eiga þess kost að sækja tónleikana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×