Innlent

Sendu persónuupplýsingar um sjúklinga í fjöldapósti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Starfsmaður á vegum Háskóla Íslands sendi í fyrradag út tölvupóst með boði um þátttöku í rannsókn á vegum Háskóla Íslands, Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins með þeim hætti að viðtakendur póstsins sáu netföng hvers annars. Afleiðingarnar eru þær að sjá má netföng fólks sem hefur leitað á vissar göngudeildir Landspítala, meðal annars göngudeild geðsviðs, á ákveðnu tímabili.

Í yfirlýsingu frá Sigurði Guðmundssyni, forseta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og Ólafi Baldurssyni, framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala, segir að um sé að ræða mikilvæga rannsókn á hugsanlegri reynslu einstaklinga af ofbeldi í nánum samböndum. Leyfi Vísindasiðanefndar hafi legið fyrir um framkvæmd rannsóknarinnar. Seinna hafi fengist viðbótarleyfi nefndarinnar til að senda spurningalista rannsóknarinnar á það netfang sem skjólstæðingar viðkomandi göngudeilda gáfu upp. Ekki hafi verið leitað til framkvæmdastjóra lækninga sem ber ábyrgð á vörslu sjúkraskráa spítalans varðandi viðbótarleyfi til þess að nota tölvupóst með þessum hætti. Óskað hafi verið leyfis til að hafa samband í tölvupósti vegna áhyggna af því að bréf eitt sér ætti frekar á hættu að vera lesið af hugsanlegum gerendum í ofbeldismálum. Hins vegar sé ljóst að í þessu tilfelli hafi ætlunin verið að senda tölvupóstinn persónulega á hvern einstakling, ekki fjölpóst. Það hafi verið alvarleg mistök hjá starfsmanni Háskóla Íslands sem ekki verði dregin til baka. Fyrir hönd Háskóla Íslands og Landspítala sé beðist afsökunar á þessum mistökum. 

„Þegar mistökin urðu ljós í gær, ákvað Vísindasiðanefnd að afturkalla leyfi til rannsóknarinnar tímabundið á meðan rannsókn á tildrögum málsins fer fram. Málið er ennfremur til meðferðar hjá Persónuvernd. Framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala og Háskóli Íslands munu láta gera sérstaka rannsókn á málinu og markmið hennar eru að hliðstæð mistök verði ekki endurtekin. Miklu máli skiptir að traust almennings á vísindarannsóknum og skilningur á mikilvægi þeirra bíði ekki tjón.

Einstaklingum sem líður illa vegna póstsins eða telja sig hafa orðið fyrir skaða vegna þessa máls er boðið að hafa samband við geðsvið Landspítala,“ segja þeir Sigurður Guðmundsson og Ólafur Baldursson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×