Innlent

Hæstiréttur staðfestir úrskurð um opið réttarhald

Hæstiréttur Íslands staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að réttarhöld yfir konu, sem er ákærð fyrir að hafa orðið barni sínu að bana, verði opin. verjandi konunnar fór fram á að réttarhöldin yrðu lokuð fyrir héraðsdómi, en dómari málsins, Arngrímur Ísberg hafnaði því. Úrskurðinum var því áfrýjað til Hæstaréttar.

Í niðurstöðu dómara kemur fram að það þurfi að vera ríkar ástæður til þess að víkja frá meginreglunni um að þinghöld í sakamálum séu opin. Svo segir að nær öllum sakborningum sé það erfitt, og sumum mikil raun, að sitja í þinghaldi þar sem fjallað er um ákærur á hendur þeim.

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur einnig fram að þótt konan sé ákærð fyrir mjög alvarlegan glæp, er það út af fyrir sig ekki næg ástæða til að loka þinghaldinu.

Því verður ekki séð, að mati dómara, að fyrir hendi séu einhver önnur atriði sem ættu að valda því að hlífa ætti henni umfram aðra sakborninga, sem þurfa að sæta því að sitja í opnum þinghöldum þar sem fjallað er um mál þeirra.

Konan, sem er 21 árs gömul, er grunuð um að hafa komið nýfæddu barni sínu fyrir í ruslagámi þar sem það fannst látið skömmu síðar. Málið kom upp í júlí síðastliðnum. Konan var látin gangast undir geðrannsókn og komust læknar að því að hún væri sakhæf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×