Innlent

Barnsmóðir Gísla dæmd til að greiða 35 milljónir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Anna Margrét Kristinsdóttir, barnsmóðir Gísla Þórs Reynissonar heitins athafnamanns, hefur verið dæmd til að greiða dánarbúi hans 35 milljónir króna. Dánarbú Gísla krafði Önnu Margréti um peninginn vegna láns sem talið var að Gísli hefði veitt henni árið 2007 vegna kaupa á sumarbústað og vegna greiðslu Önnu af láni hjá Landsbanka. Í málinu lágu ekki fyrir skriflegir lánasamningar. Gísli og Anna Margrét áttu tvö börn saman en voru ekki í skráðri sambúð.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Anna Margrét hefði hvorki hafa fært rök fyrir sjónarmiðum um að líta bæri svo á að fjárhæðin hefði verið ígildi framlags Gísla til sameiginlegrar eignamyndunar þeirra eða einhvers konar ráðskonulaun til handa Önnu né að sýkna bæri hana af kröfum dánarbúsins vegna ákvæða í lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sem hefði mögulega verið hægt að túlka þannig að vafa í samningum ætti að túlka Önnu í hag. Var því fallist á kröfu dánarbús Gísla og Anna dæmd til að endurgreiða lán það er um ræddi í málinu.

Gísli Reynisson var á tímabili einn af auðugustu mönnum Íslands. Hann var aðaleigandi Nordic Partners fjárfestingarfélags sem starfaði að stærslum hluta í Austur Evrópu. Hann átti auk þess t.a.m hótelið víðfræga D´Angleterre í Kaupmannahöfn.

Dómurinn var kveðinn upp í Hæstarétti í dag en Héraðsdómur Reykjaness hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að Anna Margrét væri sýkn af kröfunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×