Innlent

Lúpínan hörfar fyrir öðrum gróðri

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Lúpínan virðist hörfa fyrir íslenskum gróðri með tímanum samkvæmt nýlegri úttekt landfræðings. Lúpínubreiður á afmörkuðu svæði í Heiðmörk hafa hörfað um meira en helming á nokkrum áratugum.

Alaskalúpínan var flutt til landsins fyrir tæpum sjö áratugum en í upprunarlegum heimkennum sínum er hún landnemi á svæðum sem hafa orðið fyrir jarðraski en hörfar síðan fyrir öðrum fjölbreyttari gróðri. Daði Björnsson, landfræðingur, segir plöntuna hafa skapað sér talsverðar óvinsældir hér á landi.

„Menn voru hræddir um að lúpínan væri það sterk tegund að hún myndi ekki hörfa fyrir íslenskum gróðri sem er yfirleitt svona lágvaxinn,“ segir Daði.

Til að fá úr þessu skorið ákvað Daði að kanna þróun þriggja hektarasvæðis í Heiðmörk þar sem lúpínan á sér einna lengsta sögu á Íslandi en þar voru plöntur gróðursettar árið 1959. Tólf árum síðar hafði hún breitt verulega úr sér og þakti 2,1 hektara. Síðasta sumar var myndin hins vegar gjörbreytt. Lúpínan hafði hörfað af meiri en helmingi þess lands sem hún hafði áður myndað þéttar breiður eða 1 hektara. Þess má einnig geta að breiðurnar í dag eru víða orðnar gisnar.

„Það eru allar líkur á því að þetta verði svona með þessum hætti á öðrum svæðum líka,“ segir hann.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.