Innlent

Íslenskt jeppafyrirtæki á heimsmet í að fara yfir Suðurpólinn

Jepparnir á Suðurpólnum. Myndin er af heimasíðu fyrirtækisins, arctictrucks.is.
Jepparnir á Suðurpólnum. Myndin er af heimasíðu fyrirtækisins, arctictrucks.is.
Jeppafyrirtækið Arctic Trucks hefur slegið heimsmet í að fara yfir Suðurpólinn á sem skemmstum tíma. Meðalhraðinn var engu að síður 21 kílómetra hraði á klukkustund.

Heimsmetabók Guinness hefur staðfest að bílar frá Arctic Trucks settu hraðamet í ferð sinni á Suðurskautslandinu á síðasta ári, þegar þeir óku 2.308 kílómetra leið frá Novo á Suðurpólinn á aðeins fjórum dögum og tólf klukkustundum.

Á heimasíðu Arctic Trucks segir að í desember 2010 óku tveir bílar frá Arctic Trucks 2.308 kílómetra leið yfir háslettu Suðurskautslandsins, frá rússnesku stöðinni Novolazarevskaya á Suðurpólinn, á aðeins 108 klukkustundum (4,5 dögum). Ferðin var farin á tveimur sérsmíðuðum AT Expedition AT44 bílum sem byggðir eru á Toyota Hilux.

Þeir ferðuðust að meðaltali 21,4 kílómetra á klukkustund og komust að meðaltali 2,2 kílómetra á hverjum lítra af eldsneyti, en aðeins einu sinni á leiðinni gátu þeir bætt á sig eldsneyti.

Í raun má segja að þeir hafi bætt eigið heimsmet á leiðinni til baka, en hún tók aðeins 3,5 daga og þeir óku að meðaltali á 27,5 kílómetra hraða. Það met er hins vegar óskráð.

Bílar frá Arctic Trucks hafa nú ekið samtals yfir áttatíu þúsund kílómetra á hásléttu Suðurskautslandsins og hafa þeir sett ný viðmið hvað varðar hraða, langdrægni, áreiðanleika og eldsneytiseyðslu á þessu svæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×