Íslenski boltinn

Umfjöllun: Engin hefnd hjá Þór þetta árið

Hjalti Þór Hreinsson á Þórsvelli skrifar
Það var hart barist í bikarúrslitaleiknum síðastliðinn laugardag.
Það var hart barist í bikarúrslitaleiknum síðastliðinn laugardag. Mynd/Eva Björk Ægisdóttir
KR steig enn eitt skrefið í átt að Íslandsmeistaratitlinum með góðum sigri á Þór í kvöld. KR vann 1-2 þrátt fyrir að vera manni færri síðasta korterið.

KR var betri aðilinn fyrstu 20 mínúturnar og fékk nokkur hálffæri. Aron átti skalla beint á Srjdan, Baldur skot framhjá og Kjartan Henry fékk fínt færi en skalli hans hitti ekki markið.

Þórsarar börðust vel en sóttu lítið. Það breyttist þó og um miðbik hálfleiksins komust þeir yfir. Linta átti þá fína sendingu á Svein Elías sem spólaði sig framhjá tveimur varnarmönnum og kláraði færið sitt einkar vel.

Sveinn Elías átti svo skot mínútur síðar rétt eftir markið. KR-ingar létu slá sig aðeins útaf laginu en gerðu svo sitt besta til að jafna.

Það gekk lítið, liðið hélt boltanum vel en fékk engin dauðafæri. Kjartan Henry var mjög duglegur á kantinum og sótti nokkrar hornspyrnur sem ekkert kom upp úr.

Lítið gerðist út hálfleikinn, staðan 1-0 fyrir Þór að loknum fyrri hálfleik.

KR byrjaði seinni hálfleik af krafti og freistaði þess að jafna. Grétar komst í dauðafæri en skotið hans var framhjá en Þórsarar fengu líka færi.

Eftir klukkutíma leik togaði Atli Sigurjónsson Björn Jónsson niður í teignum, ekki fast en nóg til að Björn féll og fékk víti. Kjartan Henry tók það og skoraði, en Srjdan var nálægt því að verja.

Kjartan Henry fékk svo sitt annað gula spjald þegar hann sparkaði óviljandi í andlitið á Linta. Þá var korter eftir af leiknum.

Bjuggust flestir þá við stórsókn Þórsara í leit að sigri, en annað kom á daginn.

Grétar Sigfinnur kórónaði stórleik sinn með frábærum skalla sem kom KR yfir rétt fyrir leikslok. Tíunda hornspyrna skilaði loksins árangri og Srjdan kom engum vörnum við.

Leiknum lauk með 1-2 sigri KR sem er þar með komið með fjögurra stiga forskot á ÍBV og á auk þess leik til góða. Fimm stig eru í FH og Val sem hafa leikið tveimur leikjum fleirri en KR.

KR á meðal annars eftir að spila við ÍBV úti, FH og Val. Mótið er því langt frá því að vera búið. Þó er ljóst að ef KR verður meistari kemst Þór í Evrópukeppni bikarhafa.

Þórsarar eru áfram í áttunda sæti deildarinnar eftir tapið.

Þór - KR 1-2


1-0 Sveinn Elías Jónsson (21).

1-1 Kjartan Henry Finnbogason (61.)

1-2 Grétar Sigfinnur Sigurðarson (86.)

Skot (á mark): 6-12 (4-8)

Varin skot: Srjdan 6 – Hannes 5

Horn: 2-10

Aukaspyrnur fengnar: 7-9

Rangstöður: 2-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×