Lífið

Þórunn Erna: Gott að hafa nóg fyrir stafni

„Ég er þannig týpa að ég þrífst best þegar ég hef nóg að gera,“ segir Þórunn Erna.
„Ég er þannig týpa að ég þrífst best þegar ég hef nóg að gera,“ segir Þórunn Erna. Mynd/Valgarður Gíslason
„Þegar mér bauðst hlutverkið í Gulleyjunni var ég ekki lengi að stökkva á það," segir Þórunn Erna Clausen en þegar Fréttablaðið náði af henni tali var hún stödd uppi í sumarbústað.

„Það er gaman að segja frá því að Siggi {Sigurjónsson] hringdi í mig í hléi á einleiknum Ferðasögu Guðríðar og bauð mér hlutverkið. Það var búið að ganga vel að sýna einleikinn og þessi dagur varð því alveg extra góður eftir símtalið við Sigga.“

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá skrifuðu félagarnir Karl Ágúst Úlfsson og Sigurður Sigurjónsson leikgerðina að Gulleyjunni upp úr skáldsögu Roberts Louis Stevenson og leikur Þórunn þar við hlið Björns Jörundar Friðbjörnssonar, Þóru Karitasar Árnadóttur og Kjartans Guðjónssonar. Sýningin verður frumsýnd í byrjun næsta árs og er samstarf Leikfélags Akureyrar og Borgarleikhússins.

„Aðallega hlakka ég til að skylmast og berjast almennilega. Þegar ég var í skólanum var það eitt af mínum sérsviðum en ég hef voða lítið þurft að nota þá kunnáttu hingað til.“

Það er nóg fram undan hjá Þórunni eftir fríið en hún er aðstoðarleikstjóri í Galdrakarlinum í Oz, sem frumsýndur verður í Borgarleikhúsinu í september. Einnig ætlar hún að hlaupa í skarðið fyrir Nínu Dögg Filippusdóttur í ferð Vesturports með leiksýninguna Faust til Kóreu í október.

Sex mánuðir eru síðan eiginmaður Þórunnar, tónlistarmaðurinn Sigurjón Brink, lést og vill Þórunn meina að öll vinnan hjálpi henni í sorgarferlinu. „Ég er þannig týpa að ég þrífst best þegar ég hef nóg að gera. Einnig er ég fegin að hafa eitthvað að hlakka til og einbeita mér að á þessum erfiðu tímum.“

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.