Fótbolti

Þrettán knattspyrnumenn létu sig hverfa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr landsleik Erítreu og Senegal árið 1999
Úr landsleik Erítreu og Senegal árið 1999 Nordic Photos/AFP
Þrettán leikmenn knattspyrnuliðsins The Red Sea FC frá Erítreu létu sig hverfa að loknu knattspyrnumóti sem lauk í Tansaníu um helgina. Leikmenn liðsins áttu að snúa til síns heima á laugardaginn þegar í ljós kom að þrettán þeirra voru horfnir.

„Þrettán af 26 leikmönnum Erítreska liðsins hafa horfið,“ staðfesti framkvæmdastjóri knattspyrnusambands Tansaníu við Reuters-fréttastofuna.

„Sumir leikmenn reyndu að aðstoða liðsmenn sína með því að fá stimpil í vegabréf þeirra við útlendingaeftirlitið á flugvellinum. Þegar við hins vegar töldum fjölda leikmanna kom í ljós að þrettán þeirra voru fjarverandi,“ bætti hann við.

Algengt er að ólöglegir innflytjendur frá Eþíópíu, Erítreu og Sómalíu noti Tansaníu sem áfangastað á leið sinni til Suður-Afríku eða annarra landa.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem liðsmenn knattspyrnuliðs frá Erítreu láta sig hverfa. Árið 2009 hurfu tólf landsliðsmenn í Kenýu að loknu knattspyrnumóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×