Enski boltinn

Ferguson: Vil frekar sjá menn á bókasafninu en á Twitter

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stjórar liða í ensku úrvalsdeildinni virðast ekki vera par hrifnir af Twitter-væðingunni í boltanum. Í gær viðraði Arsene Wenger, stjóri Arsenal, áhyggjur sínar af Twitter og í dag tók Sir Alex Ferguson, stjóri Man. Utd, í svipaðan streng.

Skotinn vill frekar sjá leikmenn sína skottast niður á bókasafn og ná sér í bók frekar en að hanga á Twitter.

Lengi vel í vetur var Rio Ferdinand eini leikmaður Man. Utd á Twitter en á síðustu vikum hafa nokkrir leikmenn United bæst í hópinn og þar á meðal Wayne Rooney sem hótaði að svæfa mann á tíu sekúndum í gær.

"Þessu fylgir ábyrgð og leikmenn eru ábyrgir gjörða sinna. Við sem félag erum að skoða málið því þessu geta fylgt vandræði. Við viljum vera lausir við slíkt," sagði Ferguson.

"Annars skil ég ekki Twitter. Ég skil heldur ekki af hverju menn nenna að hanga á þessari síðu og hvernig þeir finna tíma til þess.

"Það er hægt að gera svo margt annað gáfulegra. Ég myndi frekar vilja sjá mína menn á bókasafninu að lesa bók en á Twitter. Þetta er tímasóun."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×