Fótbolti

Beckham vill fá að spila á Ólympíuleikunum í London

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham.
David Beckham. Mynd/AP
David Beckham hefur viðurkennt að honum langi mikið til að spila með breska landsliðinu á Ólympíuleikunum í London á næsta ári. Beckham spilaði ekki í Evrópu í vetur en er nú kominn á full á nýju tímabili með  Los Angeles Galaxy liðinu.

„Ég myndi vilja fá að vera með á Ólympíuleikunum sem leikmaður. Ég verð samt að bíða og sjá til hvernig þetta gengur allt saman hjá mér. Það er enn ár þangað til og ég ætla að njóta þessa tímabils. Það eru bara fimm leikir búnir og því nóg eftir," sagði David Beckham.

„Ég hef ekki neina ákvörðun um hvað ég geri eftir þetta tímabil. Ég held að það sé mikilvægast að einbeita mér að mínum leik þessa stundina," sagði Beckham en þriggja ára samningur hans við Los Angeles Galaxy rennur út eftir þetta tímabil.

„Ef skrokkurinn verður í lagi og ég er að spila vel þá getur vel verið að ég vilji halda áfram. Ég ætla samt ekki að hugsa um þetta fyrr en ég þarf þess," sagði Beckham.

„Ég elska jafnmikið að spila fótbolta í dag eins og ég gerði þegar ég var 21 árs. Ég tel mig líka vera enn í góðu standi enda hugsa ég vel um mig. Það er engin ástæða fyrir mig í dag að vera hugsa um það að hætta í boltanum," sagði Beckham.

David Beckham hefur lagt upp þrjú mörk og fengið fjögur gul spjöld í fyrstu fimm leikjum  Los Angeles Galaxy á tímabilinu. Liðið er í 3. sæti deildarinnar með 8 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×