Fótbolti

Þrjú íslensk mörk um helgina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslenskir knattspyrnumenn voru víða á ferðinni um helgina og þrír þeirra skoruðu mark fyrir sín lið. Hér má sjá myndböndin.

Hér fyrir ofan má sjá markið sem Jóhannes Karl Guðjónsson skoraði fyrir Huddersfield gegn Charlton. Markið skoraði hann beint úr aukaspyrnu en myndbandið er tekið upp af stuðningsmanni Huddersfield sem stóð fyrir aftan mark Charlton.

Huddersfield vann leikinn, 1-0, og er fyrir vikið enn jafnt Southampton að stigum en liðin eru í 2.-3. sæti deildarinnar og að berjast um að fara beint upp með Brighton sem er búið að tryggja sér titilinn í ensku C-deildinni.

Kolbeinn Sigþórsson skoraði sitt tólfta mark á tímabilinu fyrir AZ Alkmaar sem vann 3-1 sigur á Den Haag um helgina. AZ er í fjórða sæti hollensku úrvalsdeildarinnar með 56 stig, níu stigum á eftir toppliði PSV.

Myndbandið má sjá hér en sóknin sem endar með marki Kolbeins byrjar eftir um 1:30 mínútur.

Stabæk tapaði um helgina fyrir Molde, 3-2, á útivelli en Veigar Páll Gunnarsson skoraði öll mörk Stabæk í leiknum. Liðsfélagi hans, Bjarni Ólafur Eiríksson, lagði upp fyrra mark hans í leiknum.

Þjálfari Molde er Ole Gunnar Solskjær en þetta var hans fyrsti sigur með liðinu á tímabilinu. Samantekt úr leiknum má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×