Fótbolti

Spánverjum boðið sæti Japans í Suður-Ameríkukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjar urðu heimsmeistarar síðasta sumar.
Spánverjar urðu heimsmeistarar síðasta sumar. Mynd/AP
Heims- og Evrópumeistarar Spánverja verða hugsanlega með í Suður-Ameríkukeppni landsliða í fótbolta sem fer fram í Argentínu í sumar. Japanar hafa þurft að draga sig út úr keppninni vegna náttúruhamfaranna heima fyrir og forráðamenn keppninnar leita því að landsliði til að fylla í skarðið.

Angel Maria Villar, forseti spænska knattspyrnusambandsins, segist hafa fengið boð um að taka þátt í keppninni en Spánverjar yrðu þá í riðli með Argentínu, Bólivíu og Kólumbíu.

„Við fengum þetta boð í gær og við erum ekki búnir að segja nei. Við munum ákveða þetta á stjórnarfundi í næstu viku eða í vikunni á eftir," sagði Angel Maria Villar.

„Ég útiloka ekkert ekki síst þegar þetta boð er sent inn af vinsemd og ástúð. Við verðum líka að taka til greina kringumstæðurnar og þá erfiðu stöðu sem menn eru í. Ég vil hvorki segja af eða á en tel réttast að fara með þetta fyrir stjórnina," sagði Villar.

Suður-Ameríkukeppnin fer nú fram í 43. skiptið en Brasilía vann þegar hún fór síðast fram í Venesúela sumarið 2007. Það eiga að taka tólf lönd þátt í keppninni en Brasilíumenn eru með Paragvæ, Ekvador og Venesúela í riðli en Úrúgvæ er með Síle, Mexíkó og Perú í riðli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×