Enski boltinn

Capello vill að Carroll minnki áfengisneysluna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carroll með stuðningsmanni enska landsliðsins í gær.
Carroll með stuðningsmanni enska landsliðsins í gær. Nordic Photos / Getty Images
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, hefur rætt við ungstirnið Andy Carroll um áfengisneyslu þess síðarnefnda.

Carroll er 22 ára gamall og var keyptur frá Newcastle til Liverpool fyrir 35 milljónir punda í janúar síðastliðnum. Hann verður líklega í byrjunarliði Englands í kvöld þegar að liðið mætir Gana í vináttulandsleik.

„Andy finnst bjórinn góður. En hann þarf að bæta sig og drekka minna,“ sagði Capello við enska fjölmiðla. „Ég ræddi við hann en það er á milli okkar. Það mikilvægasta er að hann hagi sér vel.“

„Hann þarf að passa sig á öllum stundum því að þegar menn spila með enska landsliðinu eru þeir undir stöðugri smásjá stuðningsmanna og fjölmiðlanna.“

Carroll komst ítrekað í fréttirnar þegar hann var hjá Newcastle fyrir hegðun sína utan vallar en hann virðist hafa haldið sig á mottunni síðustu vikurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×