Enski boltinn

Scolari bauð Drogba í skiptum fyrir Adriano

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Luiz Felipe Scolari hefur tjáð sig um veru sína hjá Chelsea sem hann segir vera sín mestu vonbrigði á ferlinum.

Scolari tók við Chelsea sumarið 2008 en var svo rekinn rúmu hálfu ári síðar, í febrúar árið 2009. Guus Hiddink tók við og stýrði liðinu til loka leiktíðarinnar samhliða störfum sínum sem landsliðsþjálfari Rússlands.

Scolari segir að hann hafi tapað trausti leikmanna og að hann hafi reynt að fá Adriano og Robinho til liðsins til að bæta stöðu þess.

„Það var mín sök að mér tókst ekki að hafa betri stjórn á búningsklefanum í mismunandi aðstæðum,“ sagði hann við fjölmiðla í Brasilíu fyrir helgi.

„Ég reyndi að gera eitthvað í því og reyndi að kaupa Robinho. Ég vildi fá einhvern sem gæti gert eitthvað upp á sitt einsdæmi inn á vellinum því þannig leikmenn verður maður að hafa í þessari deild.“

„Ég reyndi líka að skipta Drogba út fyrir Adriano því að hann átti í vandræðum hjá Inter. Ég sagði forráðamönnum Chelsea að ég gæti haft stjórn á hegðunarvandamálum hans.“

En ekkert varð vitanlega úr því. Adriano náði ekki að bjarga ferli sínum í Evrópu og leikur í dag með Corinthians í Brasilíu. Drogba er vitanlega enn á mála hjá Chelsea.

Scolari segir að tungumálaörðugleikar hafi gert veru sína hjá Chelsea erfiðari.

„Kannski gat ég ekki tjáð mig eins vel og ég geri hér í Brasilíu. Enn í dag er ég leiður yfir því hvað gerðist. Þetta er frábær deild og sannkallaður draumastaður. Sonur minn var í námi í frábærum skóla og okkur leið mjög vel. Þess vegna varð ég svona leiður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×