Enski boltinn

Benitez: Sigurinn í Meistaradeildinni ekki Houllier að þakka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Rafa Benitez, fyrrverandi stjóri Liverpool, segir að forveri hans í starfinu, Gerrard Houllier, ætti að hætta að reyna eigna sér heiðurinn að sigri liðsins í Meistaradeildinni árið 2005.

Benitez tók við Liverpool sumarið 2004 og skilaði félaginu stórum titli strax á sínu fyrsta tímabili eftir eftirminnilegan sigur á AC Milan í úrslitaleiknum.

Houllier stýrði Liverpool í sex ár þar á undan og sagði fyrr á þessu ári að hann hefði átt stóran þátt í velgengni liðsins þar sem að allir leikmenn fyrir utan einn eða tvo hafi annað hvort verið keyptir eða aldir upp af honum.

Þessu hefur Benitez neitað og hann segir að undir sinni stjórn hafi Liverpool spilað allt öðruvísi fótbolta en áður.

„Síðustu tvö árin hjá Liverpool undir stjórn Houllier voru ekki þau bestu," sagði Benitez í samtali á fréttavef Sky Sports. „Ég var ráðinn vegna þess að það var ákveðið að breyta til og því má ekki gleyma."

„Við þurftum að vinna mörg sterk lið til að komast í úrslitaleikinn. Xabi Alonso og Luis Garcia voru lykilmenn í liðinu en þeir voru ekki hjá Houllier. Við breyttum líka lykilatriðum í því hvernig liðið nálgaðist sína leiki."

„Ég reyndi að færa spilið framar á völlinn og pressa andstæðinginn þar, rétt eins og ég gerði hjá Valencia áður. Af því má sjá að leikaðferðin var allt önnur, leikmenn lögðu sig mun meira fram og ástríða þeirra var allt önnur."

„Þetta var allt annað lið," sagði Benitez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×