Enski boltinn

Ferguson: Lundúnir fara á annan endann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur varað við því að allt muni fara á annan endann í Lundúnum helgina sem báðir undanúrslitaleikirnir fara fram í ensku bikarkeppninni.

Báðir leikirnir munu fara fram á Wembley-leikvanginum en Manchester United, lið Ferguson, mun mæta grönnum sínum í Manchester City þann 16. apríl. Degi síðar eigast við Bolton og Stoke.

Þessa sömu helgi mun Arsenal taka á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og hið árlega Lundúnamaraþon mun þar að auki eiga sér stað.

„Það er von á 60 þúsund stuðningsmönnum frá Manchester. Hversu mikla bensíneyðslu mun það hafa í för með sér,“ sagði Ferguson við enska fjölmiðla.

„Fjölmargir stuðningsmenn úr norðvesturhluta Englands munu fara til London þessa sömu helgi - stuðningsmenn Stoke, Bolton, City, United og Liverpool. Þá er líka von á fjölmörgum sem munu fylgjast með maraþoninu.“

„Það mun ríkja algjör ringulreið þarna.“

Undanúrslitaleikirnir í enska bikarnum hafa farið fram á Wembley síðan 2008 en því vill Ferguson breyta.

Það má þó færa rök fyrir því, eins og margir enskir fjölmiðlar benda á, að áhugi fyrir leikjunum er mjög mikill og að líklegt sé að uppselt verði á báða leiki en Wembley-leikvangurinn getur tekið 90 þúsund áhorfendur í sæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×